Sjúkratryggingar Íslands og Defend Iceland gera samning um aukið netöryggi
Defend Iceland, leiðandi fyrirtæki á sviði netöryggislausna, hefur undirritað samning við Sjúkratryggingar um samstarf sem mun tryggja enn frekar netöryggi og verndun viðkvæmra gagna innan heilbrigðiskerfisins.
Með samstarfinu fá Sjúkratryggingar aðgang að nýjustu netöryggislausnum Defend Iceland og tryggja þannig stöðuga eftirfylgni með netöryggi stofnunarinnar. Sjúkratryggingar munu nýta sérþekkingu öryggissérfræðinga Defend Iceland í gegnum villuveiðigátt fyrirtækisins, vettvang þar sem aðferðir netárásarhópa eru hermdar í því skyni að finna veikleika í net-, hugbúnaðar- og tölvukerfum. Þannig er hægt að verja sjúkraskrár og önnur viðkvæm gögn gegn mögulegum netárásum.
“Öryggi gagna er forgangsmál hjá Sjúkratryggingum og við erum mjög ánægð með að ganga til samstarfs við Defend Iceland. Með þessu samstarfi getum við tryggt að skjólstæðingar okkar njóti enn meiri verndar á sviði netöryggis.”
Sigurður H. Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga
“Við erum stolt af því að fá tækifæri til að styðja við Sjúkratryggingar í þessum mikilvæga málaflokki. Heilbrigðisgögn eru meðal viðkvæmustu upplýsinga sem er að finna í samfélaginu, og það er okkar hlutverk að tryggja að þau séu örugg. Það að fá Sjúkratryggingar í lið með Defend Iceland, þar sem stofnunin bætist í hóp öflugra aðila þar sem fyrir eru meðal annars Landspítalinn og Stafrænt Ísland, fyllir okkur jafnframt bjartsýni um að fleiri opinberir aðilar muni stíga mikilvæg skref til að tryggja netöryggi sinna kerfa og gagna almennings.”
Theódór Ragnar Gíslason, stofnandi og framkvæmdastjóri Defend Iceland
"Samningurinn er liður í þeirri stefnu Sjúkratrygginga að efla öryggi upplýsinga og tryggja að kerfi þeirra uppfylli ströngustu öryggiskröfur. Samstarfið er einnig mikilvægur áfangi fyrir Defend Iceland sem styrkir stöðu sína sem leiðandi fyrirtæki í netöryggislausnum á Íslandi."