
Skagi og Defend Iceland í samstarfi
Skagi og Defend Iceland hafa gert samning um aðgang að hugbúnaði villuveiðigáttar fyrirtækisins til að fyrirbyggja árásir á net- og tölvukerfi Skaga, en í samstæðu Skaga eru VÍS, Fossar fjárfestingarbanki og SIV eignastýring.
Í tilkynningu segir að með notkun hugbúnaðarins séu fremstu aðferðir í netöryggi nýttar til þess að auka viðnámsþrótt net- og tölvukerfa og auka þar með gagnaöryggi hjá samstæðu Skaga.
„Viðskiptavinir okkar sýna okkur mikið traust og því viljum við tryggja að kerfin okkar séu eins örugg og kostur er. Við hlökkum til að vinna með Defend Iceland til þess að auka öryggi okkar og viðskiptavina okkar enn frekar, ásamt því að leggja okkar af mörkum til þess að auka stafrænt öryggi íslensks samfélags,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga.
Defend Iceland segir þá að markmið fyrirtækisins sé að búa til öruggara stafrænt samfélag, en aukin þekking á tilvist og eðli öryggisveikleika í tölvukerfum sé forsenda þess að því markmiði verði náð.
„Alvarlegum netárásum fjölgar og íslenskt samfélag hefur ekki farið varhluta af því. Besta leiðin til að koma í veg fyrir slíkar árásir er að grípa til fyrirbyggjandi netöryggisaðgerða. Við bjóðum Skaga velkominn í hóp þeirra framsæknu fyrirtækja sem nýta sér nýjustu tækni í baráttunni við netárásir. Við hlökkum til að vinna með Skaga að öruggara stafrænu samfélagi,” segir Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar, sölu- og markaðsmála hjá Defend Iceland.